Kaupþing banki hefur gefið út skuldabréf í Kanada fyrir 500 milljón kanadadali, eða sem svarar til tæpra 30 milljarða íslenskra króna. Þetta er í fyrsta sinn sem Kaupþing gefur út skuldabréf í Kanada. Skuldabréfaútgáfan, sem er til þriggja ára, ber 4,7% fasta vexti. Gengið var frá útgáfunni fyrir helgi, segir í tilkynningu félagsins.


Þar kemur fram að markmið bankans var að stærð fyrstu skuldabréfaútgáfu hans í Kanada næmi um það bil 300 milljónum kanadadölum. Í ljósi mikillar eftirspurnar, gæða fjárfestahópsins og þeirra fjármögnunarkjara sem í boði voru, var ákveðið að verða við ósk fjárfesta og gefa meira út en til stóð. Skuldabréf voru seld til fjölbreytts hóps kanadískra fagfjárfesta og alls fengu 17 fjárfestar úthlutað bréfum.

Mikil áhersla var lögð á það í fyrra að auka fjölbreytni í erlendri fjármögnun Kaupþings. Haldið verður áfram á sömu braut í ár og er skuldabréfaútgáfan í Kanada mikilvægt skref á þeirri leið. Hún er einnig til marks um þá stefnu bankans að auka enn frekar landfræðilega fjölbreytni fjárfestahópsins.

Yfirumsjón með útgáfunni höfðu Merrill Lynch Canada og TD Securities en aðir umsjónaraðilar voru HSBC Securities (Canada) og RBC Capital Markets.