Kaupþing hefur hafið útgáfu á nýrri tegund gjafakorts, sem er þeim kosti búið, að hægt er að nota það nánast hvar sem. Ekki eingöngu á Íslandi, heldur einnig í útlöndum. Í frétt frá Kaupþingi segir að nýja kortið sé svipað hefðbundnu kreditkorti, sem búið er að greiða inná fyrirfram. Því fylgir kreditkortanúmer og því hægt að nota það til viðskipta á netinu. Kortið gildir í a.m.k. ár frá útgáfudegi og þar sem það er ekki bundið við eina verslun, er hægt að nota það í öllum verslunum sem tengdar eru beinlínutengingu við greiðslukerfi Vísa. Ekki er hægt að eyða meiru en greitt er inn á kortið. Fyrst um sinn verða kortin aðeins afgreidd í útibúum Kaupþings, en innan skamms verður einnig hægt að kaupa þau á netinu. Þá verður hægt að velja um fjölda mynda til að setja á kortin og líka má koma með eigin myndir til að setja á þau, samkvæmt því sem segir í fréttinni.