Tilkynnt verður um nýtt nafn Nýja Kaupþings í dag samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Ekki hefur fengist staðfest hvað bankinn mun heita en nöfn á borð við Esja, Nordis, Stefnir, Atlantis og Arion  hafa skotið upp kollinum.

Í samtali við Viðskiptablaðið vildi Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi bankans ekki tjá sig um málið.

Nýi Kaupþing hélt stefnumótunarfund meðal starfsmanna sina um miðjan mars en um 800 starfsmenn tóku þátt í þeim fundi. Meðal þeirra tillagna sem komu fram á fundinum var að breyta nafni bankans.

Í ársbyrjun 2004 fékk Kaupþing Búnaðarbanki nýtt nafn, KB banki. Í ársbyrjun 2007 var svo nafninu KB banki breytt í Kaupþing banki. Eftir fall bankans í haust fékk hann nafnið Nýi-Kaupþing banki sem nú verður breytt.

Viðbót (kl. 11.30) : Starfsmenn bankans hafa verið boðaðir á starfsmannafund kl. 17.30 í dag í Hafnarhúsinu þar sem nýja nafnið veruðr kynnt.