Fyrrum stjórnendur Kaupþings virðast hafa verið duglegir við að finna ný hlutverk fyrir Otris S.A. sem Viðskiptablaðið hefur greint frá að undanförnu.

Í greinargerð sérstaks saksóknara, sem fylgdi gæsluvarðhaldsúrskurði Magnúsar Guðmundssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, kemur félagið fyrir. Þar er sagt frá því að helstu stjórnendur Kaupþings séu grunaðir um meinta refsiverða háttsemi vegna lána og annarra fjármagnsfærslna úr bankanum til tveggja félaga: Marple Holdings S.A, sagt í eigu Skúla Þorvaldssonar, og Lindsor Holdings Corporation.

Lindsor fékk lánað sama dag og neyðarlögin voru sett

Lindsor er skráð á Tortólaeyju og eigandi þess er sagður vera áðurnefnt Otris, sem var stýrt af stjórnendum Kaupþings. Samkvæmt gögnum lánaði Kaupþing Lindsor 171 milljón evra, rúma 28 milljarða króna á núvirði, þann 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi og Seðlabanki Íslands lánaði bankanum 500 milljónir evra. Lánið til Lindsor, sem var aldrei borið undir lánanefnd bankans, var notað til þess að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum þess banka og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar.

Áhættan flutt af Skúla Þorvaldssyni og starfsmönnum í Lúxemborg yfir á Kaupþing

Í greinargerðinni segir að talið sé "að tilgangur viðskiptanna hafi verið sá að flytja áhættuna af fallandi verðgildi skuldabréfanna af eigendum þeirra (Skúla og ónafngreindum lykilstarfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg) yfir á Kaupþing á Íslandi. Við það hafi fjármunum Kaupþings "verið stefnt í verulega hættu"."

Viðskiptin fóru fram í gegnum Kaupþing í Lúxemborg en Magnús Guðmundsson stýrði bankanum á þeim tíma. Sérstakur saksóknari telur að Magnús "hafi átt beina aðild að framkvæmdinni". Þá bendi fyrirliggjandi gögn til þess að Lindsor hafi keypt skuldabréfin á mun hærra verði en markaðsverði.

Kaupþing féll þremur dögum síðar. Þar sem Lindsor átti ekki aðrar eignir en nú verðlausu skuldabréfin og engar aðrar ábyrgðir né tryggingar voru veittar fyrir láninu er tap Kaupþings vegna þess gríðarlegt. ___________________________

Ítarleg úttekt er á þessum viðskiptum í Viðskiptablaði vikunnar.