Breska fjármálaritið The Banker hefur sent frá sér árlegan lista yfir þúsund stærstu banka heims. Athygli vekur að bæði Kaupþing og Landsbankinn hafa færst ofar á listann frá því í fyrra. Kaupþing situr nú í 124. sæti listans og hækkar sig um átján sæti frá því í fyrra. Landsbankinn er í 177. sæti en sat í 203. sæti í fyrra og hefur því hækkað um heil 26 sæti.

Glitnir hefur hins vegar lækkað um þrjú sæti frá því í fyrra og situr nú í 232. sæti.

Listinn miðast við stöðu bankanna um áramótin. Samkvæmt The Banker hefur vöxtur asískra banka verið einna mestur að undanförnu.

Tímaritið The Banker hefur verið starfrækt í London frá árinu 1926 og er nú í eigu The Financial Times.