Stjórnir Kaupþings [ KAUP ] og Spron [ SPRON ] hafa samþykkt samrunaáætlun um að Kaupþing yfirtaki eignir og skuldir SPRON með samruna félaganna.

Samruninn hefur óveruleg áhrif á heildarstærð Kaupþings á samstæðugrundvelli samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Við samrunann fá hluthafar í Spron sem endurgjald sem svarar til markaðsvirðis Spron við lok viðskiptadags þann 30. júní 2008 að viðbættu 15% álagi. Þetta leiðir til þess að greiddar eru sem nemur 3,83 krónur fyrir hvern hlut í Spron. Endurgjaldið verður samsett með þeim hætti að 60% þess verða í formi hluta í Exista hf. og 40% í formi hluta í Kaupþingi.

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að stjórnir félaganna telja að samruninn hafi jákvæð áhrif á starfsemi félaganna á Íslandi.

„Samruninn er til þess fallinn að bæta þjónustu, auka arðsemi í rekstri og virði fyrir hluthafa.  Órói á fjármálamörkuðum undanfarin misseri hefur gert það að verkum að auka þarf áherslu á hagræðingu og hagkvæmni í rekstri fjármálafyrirtækja,“ segir í tilkynningunni.

„Með sameiningu Kaupþings og SPRON er verið að bregðast við breyttu rekstrarumhverfi og styrkja starfsemi félaganna á íslenskum fjármálamarkaði.  Við sameininguna verður lögð áhersla á að viðhalda sérstöðu þeirra og markaðsstöðu.“

Þá kemur fram að útibú beggja verða áfram rekin undir eigin merkjum.

Tengdar fréttir:

Sameining háð samþykki yfirvalda og hluthafa Spron

Hluthafar í Spron fá greitt með hlutafé í Kaupþing og Exista

„Markmiðið hefur verið að efla félagið enn frekar“

Kaupþing vill nýta sterka stöðu Spron á einstaklingsmarkaði