Íranski auðkýfingurinn Robert Tchenguiz og Kaupþing hafa tryggt sér rúmlega 47% hlut í bresku veitingahúsakeðjunni La Tasca, samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar í London. Kaupþing og Tchenguiz buðu 104 milljónir punda, eða 13,5 milljarða króna, í keðjuna. Öðrum hluthöfum verður sent yfirtökutilboð fyrir þann 26. apríl.

Tragus Group, sem er í eigu Blackstone-fjárfestingarsjóðsins, gerði einnig tilraun til að kaupa La Tasca og var félagið tilbúið að greiða 100 milljónir punda fyrir breska fyrirtækið, sem sérhæfir sig í spænskri matargerð og rekur veitingastaði víðsvegar um Bretland. Stjórnendur La Tasca hafa samþykkt að mæla með kauptilboði Kaupþings og Tchenguiz.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því í febrúar að Kaupþing, ásamt Tchenguiz, hafi hafið yfirtökuviðræður við La Tasca og þá kom fram að eignin verður sett inn í fjárfestingarsjóðinn Kaupþing Capital Partners II, sem mun framvegis halda utan um óskráðar eignir bankans.

Kaupþing leiddi í byrjun árs kaup á bresku tískuvöruverslunarkeðjunni Phase Eight fyrir um sjö milljarða króna og hefur 35% hlutur Kaupþings í fyrirtækinu verið settur í sjóðinn, sem sérhæfir sig í skuldsettum yfirtökum. Robert Tchenguiz er stjórnarmaður í Exista.