Norska viðskiptablaðið DN greindi  ítarlega frá því í gær að Norðmenn hættu nú störfum hjá Kaupþingi í stórum stíl.

„Þegar markaðir gefa eftir getum við ekki haldið áfram með sama mannskap,“ segir Jónas Sigurgeirsson, forstöðumaður samskiptasviðs Kaupþings, í samtali við norska blaðið.

DN greinir frá því að fjölda norskra starfsmanna í útibúi bankans í Lúxemborg hafi verið sagt upp í kjölfar lakrar afkomu þess hluta samstæðu bankans.

Johnie W. Brøgger, sem stýrði starfseminni í Lúxemborg, hætti síðan að eigin ósk rétt eftir áramót, að því er kom fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Ásamt Brøgger hafa tveir samlandar hans hætt störfum hjá bankanum í ár. Kaupþing hefur á síðustu árum ráðið fjölda norskra starfsmanna inn í fjárfestingarbankastarfsemi sína. Þannig var Dag Ringdal, sem var hátt settur hjá Credit Suisse, fenginn til Kaupþings í Lúxemborg.

Jafnframt var fjöldi starfsmanna frá Nordea fenginn yfir til bankans.

Jónas Sigurgeirsson segir í samtali við DN að engar breyttar áætlanir séu uppi með starfsemina í Noregi og að uppbyggingu verði haldið áfram.