Stjórnendur Kaupþings gerðu sitt ítrasta til að selja Kaupthing Singer & Friedlander (KSF) til bandaríska fjárfestingasjóðsins JC Flowers í aðdraganda þess að lokað var á starfsemi bankans í Bretlandi. Þetta kemur fram í dómsniðurstöðu  (e. High Court of Justice) í máli skilanefndar gegn breska ríkinu. Málaferlin voru meðal annars til að varpa ljósi á þá atburðarás sem varð til þess að bankinn féll.

Í dómsniðurstöðunni kemur skýrt fram að breska fjármálaeftirlitið (FSA) var í stöðugu sambandi við stjórnendur Kaupþings sem gerðu sitt  ítrasta til að tryggja lausafjárstöðu bankans. Ein af þeim lausnum sem Kaupþings-menn buðu FSA var að selja KSF til JC Flowers.

Gátu ekki fært inn þær greiðslur sem þeir lofuðu

Þegar kom fram að 7. október í fyrra gerði FSA Kaupþingsmönnum ljóst að greiðslur inn á reikninga KSF, sem hafði verið lofað, hefðu ekki borist en Kaupþing hafði lofað að færa 175 milljónir punda inn á reikninga KSF um morguninn þann 7. október. Kaupþingsmenn sögðu að peningarnir myndu berast innan stunda. FSA sendi tölvupóst til Kaupþings kl. 12.05 um að ef fjármunirnir myndu ekki berast þennan dag myndi starfsemi bankans vera stöðvuð.

Kl. 17.35 sendi FSA tölvupóst til Kaupthing Singer & Friedlander (KSF) þar sem segir að félagið verði fært undir skiptastjóra (e. administration) ef ekki verði búið að tryggja það fjármagn sem vantar kl. 7.30 morguninn eftir, meðal annars til að gefa Kaupþingsmönnum færi á að semja við JC Flowers. Var gefin viðbótarfrestur til kl. 6.30 að morgni 8. október til að fá staðfestingu um að fjármunir kæmu frá JC Flowers.

Kl. 18.57 sendi Kaupþing bréf til FSA þar sem sagði að þó ekki næðist samstarf við JC Flowers myndi félagið geta útvegað þau umrædd 175 milljónir punda sem uppá vantaði. Þrjár mínútur yfir miðnætti 8. október sendi Kaupþing tilkynningu um að viðræður við JC Flowers hefðu engan árangur borið en bankinn vonaðist til að geta aflað þess lausafjár sem uppá vantaði.

Kaupþingsmenn lofuðu þá að setja 300 milljónir punda inn á reikninga KSF um morguninn. FSA krafðist staðfestinga á því kl. 09.00 ella yrði starfsemin stöðvuð. Um leið kröfðust þeir þess að Kaupþingsmenn gerðu grein fyrir hvernig útflæði fjármagns yrði stöðvað en 2,8 milljarður punda var á Edge reikningum KSF. Ekkert af þessu tókst og starfsemin var stöðvuð að lokum.