Kaupþing banki í London hefur fengið til sín starfsmenn frá öðrum fjármálafyrirtækjum til að setja upp verðbréfaeiningu bankans í Bretlandi, en lengi var talið að bankinn myndi kaupa slíka einingu og hefur hann margoft verið orðaður við bresk verðbréfafyrirtæki.

Bankinn nældi í Tim Cockroft og Paul Wedge frá KBC Peel Hunt, sem er breski verðbréfaarmur belgíska bankans KBC, og Hugh MacAlister frá þýska bankanum Dresdner Kleinwort Wasserstein.

Breska dagblaðið The Daily Telegraph segir að Kaupþing hafi reynt að kaupa fjögurra manna teymi frá svissneska fjárfestingabankanum UBS, sem leitt er af Marcu Chorley, en mistekist.

Blaðið segir að í fyrstu hafi litið út fyrir að Kaupþingi hafi tekist að fá teymið til starfa, en í gær neitaði UBS að viðurkenna að teymið væri að hætta.