Kaupþing banki hefur selt 6,1% heildarhlutafjár í Exista til níu íslenskra lífeyrissjóða, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Eftir viðskiptin á Kaupþing banki 14,8% hlutafjár í Exista.

Bankinn innleysir 5,7 milljarða króna hagnað af sölunni á þriðja ársfjórðungi. Salan á hlutunum er liður í ferli sem miðar að því að eignarhlutur bankans í Exista verði óverulegur eins og tilkynnt var um á aðalfundi bankans í mars.

Kaupþing banki hyggst jafnframt selja hluti í Exista til fagfjárfesta í tengslum við skráningu Exista í Kauphöll Íslands, sem fyrirhuguð er í september næstkomandi. Fyrirkomulag sölunnar verður áskriftarverðlagning (e. book-building). Þá mun stjórn Kaupþings banka leggja til við hluthafafund síðar á árinu að um helmingi þeirra hluta í Exista sem bankinn átti fyrir viðskiptin í dag verði úthlutað til hluthafa Kaupþings banka í formi auka arðgreiðslu.