Greiningardeild Kaupþings ætlar ekki að gera greiningar á einstökum fyrirtækjum aðgengilegar með sama hætti og verið hefur heldur verða þær aðeins sendar á valdan hóp af viðskiptamönnum bankans. Þetta táknar að spár greiningardeildar Kaupþings um markgengi, meðmæli um undir-, markaðs- eða yfirvogun einstakra fyrirtækja verða ekki birt á netinu eða sendar fjölmiðlum.

Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir að í raun þekkist það fyrirkomulag sem hér hefur tíðkast hvergi annars staðar, það sé séríslenskt fyrirbæri. Slíkar greiningar verði eftir sem áður gerðar en þeim verði haldið innan ákveðins hóps. Venjulegt fólki, sem ekki sé með eignsafn, eigi auðvitað helst ekki að taka stöður í einstökum fyrirtækjum enda miðist spárnar við að menn séu með eignasafn. Allar spár um efnahagshorfur verði hins vegar með óbreyttu sniði og áfram verði spáð um afkomu einstakra atvinnugreina.