Skilanefnd Kaupþings banka hf. fullyrðir í tilkynningu sem hún hefur sent frá sér að hún hafi veitt skattrannsóknarstjóra allar þær upplýsingar sem henni eru tiltækar og óskað var eftir.

Haft var eftir Bryndísi Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag að tvær skilanefndir gömlu bankanna hefðu synjað óskum hennar um aðgang að gögnum.

Vegna fréttarinnar hefur skilanefnd Kaupþings sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Skilanefnd Kaupþings banka hf. hefur veitt skattrannsóknarstjóra allar þær upplýsingar sem henni eru tiltækar og óskað var eftir. Skilanefnd telur rétt að taka fram að í svari til skattrannsóknarstjóra hafi komið fram að Kaupþing banki hf. hafði ekki neina aðkomu að því félagi sem var tilefni fyrirspurnar skattrannsóknarstjóra."

Undir tilkynningunni er nafn Steinars Þórs Guðgeirssonar.