Ekki liggur enn fyrir hvort Kaupþing styðji kaup norska tryggingafélagsins Storebrands á líftryggingahluta sænska bankans Handelsbank (SPP). Greint var frá því í vikunni að forsvarsmenn Storebrands hefðu undirritað samkomulag um kaupin, en þau þurfa að njóta stuðnings tvo þriðju hluta hluthafa Storebrands, svo þau geti gengið eftir.

Kaupþing er stærsti hluthafinn í Storebrand og á um 20%. Endanleg ákvörðun hluthafa þarf ekki að liggja fyrir fyrr en á hluthafafundi Storebrands sem boðaður hefur verið í október.

Haft er eftir Jónasi Sigurgeirssyni, forstöðumanni samskiptasviðs Kaupþings, í frétt Reuters að bankinn sé að skoða málið. Engin ákvörðun hafi enn verið tekin í þessum efnum. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort bankinn teldi kaupin yfirhöfuð áhugaverð. Exista á um 5,56% hlut í Storebrand.

Að sögn Sigurðar Nordal, framkvæmdastjóra samskiptasviðs hjá Exista, er verið að skoða þetta mál þar á bæ.