Í nýrri verðbólguspá greiningardeildar Kaupþings er gert ráð fyrir 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV). Verði það raunin mun 12 mánaða verðbólga standa í 13,2%.

Greiningardeild Kaupþings segir útsöluáhrif til lækkunar VNV verða töluverð að þessu sinni, meiri en venjulega. Er það vegna þess að verðmælingin fer nú fram um miðjan júlí en hefur undanfarin ár átt sér stað í upphafi mánaðarins. Á móti gæti þessi breyting dregið úr útsöluáhrifum í ágúst, en gert er ráð fyrir að verðbólga á ársgrundvelli nái hámarki þá í 14%.

Í spánni segir að neytendur séu farnir að halda fastar um pyngjuna en áður og því muni samdráttur í einkaneyslu væntanlega halda aftur af verðbólguþrýstingi.