Greiningardeild Kaupþings banka hefur endurskoðað verðbólguspá sína fyrir apríl og spáir 0,9% hækkun vísitölu neysluverðs.

Í bráðabirgðaspá greiningardeildarinnar, frá 20. mars, var gert ráð fyrir 0,7% hækkun vísitölunnar. Spáin breytist fyrst og fremst vegna hækkunar á eldsneytisverði, en það hækkaði um 7% í síðastliðnum mánuði. Það er eina forsendan sem breytist.

Vísitöluáhrif eldsneytishækkananna eru því umtalsverð og verða í kringum 0,3% í apríl-mælingu vísitölunnar. Ef spáin rætist fer tólf mánaða verðbólga í 5,2% og vísitölugildið verður 254,6 stig

Áhrif af veikingu krónunnar gætu hugsanlega komið fram að einhverju leyti í apríl. Eins og kunnugt er veiktist krónan um tæp 10% í mars og það sem af er ári hefur hún veikst um tæp 15%. Áhrif gengisbreytinga koma þó jafnan fram í verðlagi með nokkurri töf, segir greiningardeildin.