Skráð atvinnuleysi í desember 2007 var 0,8% eða að meðaltali 1.357 manns, sem eru 36 fleiri en í nóvember sl. eða 2,6% aukning.  Atvinnuleysi er um 28% minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,2%. Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysi stendur í stað á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er nú 0,6% líkt og í nóvember, og er einnig óbreytt á landsbyggðinni eða 1,2%.

Lítils háttar aukning er í atvinnuleysi karla á landsbyggðinni. Atvinnuleysi kvenna minnkar lítils háttar en mælist óbreytt eða 1,1%.

Vísbendingar um atvinnuástandið í janúar

Atvinnuástandið versnar yfirleitt milli desember og janúar segir Vinnumálastofnun. Í fyrra jókst atvinnuleysið um 5% milli þessara mánaða og var þá 1,2% í desember 2006, og 1,3% í janúar 2007. Lausum störfum hjá Vinnumálastofnun fækkaði um 57 milli nóvember og desember og voru 235 í lok desember. Atvinnulausum í lok desember fjölgaði frá lokum nóvember eða um 79, sem er minni aukning en á sama tíma árið 2006 þegar fjölgaði um 189 milli þessara mánaða. Vinnumálastofnun telur líklegt að atvinnuleysið í janúar 2008 muni aukast lítillega og verða á bilinu 0,8%-1,1%.

Vinnumarkaður enn þaninn – en kólnun framundan segir Kaupþing.

Greiningadeild Kaupþings segir atvinnuleysi mælast mjög lágt hér á landi, en að mati telur að hröð kólnun muni  eiga sér stað í hagkerfinu á næstu misserum.

„Þrátt fyrir að vísbendingar um slíkt hafi enn ekki komið fram er það okkar mat að nýjar hagtölur á fyrstu mánuðum ársins muni sýna talsverðan viðsnúning. Greiningardeild gerir ráð að hratt dragi úr vexti einkaneyslu á fyrstu fjórðungum ársins. Þá eru  stóriðjuframkvæmdum senn á enda og því mun eftirspurn eftir vinnuafli dragast saman á fyrri árshelmingi ársins,” segir í hálffimm fréttum Kaupþings.

Að mati Kaupþings mun skráð atvinnuleysi mælast á bilinu 2,5% á árinu 2008.