Í dag eru liðnar fjórar vikur frá því að viðræður hófust á milli Kaupþing og SPRON um mögulega sameiningu en gert var ráð fyrir því að viðræðum myndi ljúka á fjórum vikum.

Sameining félaganna er háð samþykki hluthafafundar SPRON, stjórnar Kaupþings, Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og lánveitenda félaganna og segir Greining Glitnis í Morgunkorni sínu því ljóst að um langt ferli verður að ræða ákveði félögin að sameinast.

Þá er ljóst að mörg úrlausnarefni eru framundan verði skrefið stigið til fulls og stefnt á sameiningu. Eitt þeirra er að finna kaupendur að beinum og óbeinum eignarhlut SPRON í Exista.

„Við teljum sameiningu félaganna jákvæða fyrir íslenskan fjármálamarkað,“ segir í Morgunkorni Glitnis.