„Aðdragandinn var skammur. Stjórn Kaupþings sendi stjórn Spron bréf í dag þar sem lýst var yfir áhuga á sameiningu félaganna,“ segir Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir sameiningarviðræður á grunnstigi en mikill áhugi sé fyrir hendi hjá báðum aðilum.

Aðspurður um áhuga Kaupþings á sameiningu við Spron segir Ingólfur að Kaupþing þekki félagið (Spron) vel og hafi því góða hugmynd um ferli sameiningarviðræðna .

Þá segir hann Spron hafa sterka stöðu sem viðskiptabanki á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum með starfssemi út um allt land og viljum efla hana enn frekar hér á suðvesturhorninu,“ segir Ingólfur. Hann segir að verði af sameiningu muni hinn sameinaði banki hafa um 30% markaðshlutdeild á viðskiptabankamarkaði.