„Við stefnum að því að selja þau bréf sem við fáum í Exista strax og gerum ráð fyrir því að ljúka því innan nokkra vikna," segir Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Kaupþings [ KAUP ], í samtali við Viðskiptablaðið.

Exista er að yfirtaka fjarskipta- og upplýsingatæknifyrirtækið Skipti og greiðir fyrir með eigin bréfum. Kaupþing var næststærsti hluthafi Skipta með 27,8% hlut og fær í skiptum fyrir hann um 9% hlut í Exista. Það þýðir að bankinn verður næststærsti hluthafi Exista. Kaupþing hefur ekki enn fengið bréfin í hendur, en yfirtökutilboðinu lýkur í lok maí. Síðast þegar flaggað var nam hlutur Exista í Skiptum um 94%.

Exista er stærsti hluthafi Kaupþings með 23% hlut. Í svokallaðrar Íslandskrísu árið 2006 var krosseigna tengsl íslenskra fyrirtækja sérstaklega gagnrýnt af erlendum fjölmiðlum. Í kjölfarið greiddi Kaupþing 7,7% hlut í Exista í arð til hluthafa sinna, í lok ársins.

Bakkabræður Holding B.V., hollenskt eignarhaldsfélag í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, á 45,2% hlut í Exista, miðað við hluthafalistann eins og hann er fyrir hlutafjáraukningu vegna kaupanna á Skiptum, Kista fjárfestingafélag á 8,9%, Gift fjárfestingarfélag, sem var áður eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar, á 5,4% og Castel (Luxembourg)SARL í eigu Robert Tchenguiz á 5,1%.