Kaupþing er á meðal fjárfesta sem hafa samþykkt að kaupa bandaríska fasteignafjárfestingafélagið Spirit Finance fyrir 3,5 milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar um 235 milljörðum íslenskra króna að skuldum félagsins meðtöldum. Spirit Finance greindi frá kaupunum í gær, en fjárfestahópurinn er leiddur af ástralska bankanum Macquarie Bank.

Hópurinn hefur samþykkt að borga 1,6 milljarða dala fyrir hlutafé bandaríska félagsins, ásamt því að taka yfir skuldir að virði 1,9 milljarða dala, segir í tilkynningu frá Spirit. Ekki hefur komið fram hve stóran hlut Kaupþing mun eignast í félaginu og aðrir fjárfestar voru ekki nafngreindir. Ekki náðist í Helga Bergs, sem stýrir fjárfestingabankasviði Kaupþings frá London.

Gengi hlutabréfa Spirit Finance var 13,05 dalir á hlut í kauphöllinni í New York á mánudaginn. Kauptilboð fjárfestahópsins hljóðar upp á 14,5 dali á hlut, sem er 11% hærra en gengi félagsins við lok fyrsta viðskiptadags vikunnar.

Spirit Finance sérhæfir sig sölu og endurleigu á fasteignum og tengdri fjármögnun. Íslensk fyrirtæki, sérstaklega Baugur sem einnig hefur fjárfest töluvert í fasteignum í Evrópu, hafa notað slíka aðferð við kaup á fyrirtækjum.

Þó svo að fjárfestahópurinn hafi samþykkt að kaupa Spirit Finance hefur félagið leyfi til þess að skoða hugsanleg tilboð frá öðrum aðilum þangað til 9. apríl næstkomandi. Svissneski fjárfestingabankinn Credit Suisse hefur sölutryggt fjármögnun til að styðja við kaup Macquarie og Kaupþings á bandaríska félaginu.