Neytendasamtökin hafa, í kjölfar kvartana frá neytendum, ítrekað gagnrýnt aðferðir Kaupþings við sölu á Vista viðbótarlífeyrissparnaði.

Þetta kemur fram í frétt á vef Neytendasamtakanna undir fyrirsögninni „Kaupþing tekur upp vandaðri vinnubrögð“.

Í fréttinni segir að fjölmörg dæmi séu um að ungt fólk hafi gert bindandi samninga í verslunarmiðstöðvum, á vinnustöðum og jafnvel á kaffihúsum. Einnig eru týnd til dæmi um að sölumenn Kaupþings hafi selt unglingum viðbótalífeyrissparnað í kirkjugarði og selt hann krökkum sem ekki eru orðnir fjárráða.

Fulltrúi Neytendasamtakanna átti fund með forsvarsmönnum Kaupþings þar sem sölumennska Kaupþings var gagnrýnd.

Neytendasamtökin lögðu til að Kaupþing setti í skilmála sína ákvæði um að rétthafi samnings gæti sagt upp samningnum innan 14 daga frá undirritun, þannig að fólk hefði ákveðið svigrúm til að hætta við.

Kaupþing féllst á þetta og hefur nú bætt eftirfarandi við samningsskilmálana: „Undirritun rétthafa á samninginn skuldbindur hann ekki fyrr en fjórtán dögum frá gerð samningsins og er rétthafa heimilt að falla frá samningi innan þess frests.“

Neytendasamtökin lýsa í frétt sinni yfir ánægju sinni með þessa breytingu sem Kaupþing hefur gert á skilmálum sínum.