Greiningardeild Kaupþings telur líkur á því að einhver rekstrarfélaganna – til viðbótar við 365 – muni óska eftir afskráningu úr Kauphöll Íslands til þess að geta unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu fjarri opinberri umfjöllun bæði fjölmiðla og greiningardeilda.  Í Hálffimm fréttum greiningardeildarinnar nefnir hún þó ekki fyrirtæki, sem eru líkleg til þess að sækja um afskráningu.

„Ljóst er að skuldsetning flestra íslensku rekstrarfélaganna mun verða þeim fjötur um fót og ógna arðsemi á þessu ári og næsta ef ekki kemur til verulegs rekstrarbata, frekari innspýtingar eiginfjár eða eignasölu til lækkunar á skuldsetningu,“  segir greiningardeildin.

„Þau félög sem hins vegar ná að standa niðursveifluna af sér eru líkleg til þess að vera í kjörstöðu til áframhaldandi vaxtar. Óvissan er samt, enn sem fyrr, fólgin í því hve lengi núverandi niðursveifla muni vara,“  segir greiningardeildin.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að átta félög eru á leið úr Kauphöllinni í ár: 365, FL Group, Flaga Group, Icelandic Group, Skipti  Spron og TM eru þegar farin. Og greiningardeild Kaupþings hefur áður sagt að henni þykir líklegt að Vinnslustöðin fari af markaði á seinni hluta ársins.