Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, sagði á uppgjörsfundi í morgun að bankinn myndi líklega treysta sér til að gefa út skuldabréf í Evrópu á næsta ári, en bankinn hefur sótt fjármagn til Bandaríkjanna og Asíu í kjölfar umróts á íslenskum fjármálamarkaði.

Hreiðar Már benti á að mikil umframeftirspurn hafi verið eftir þriggja milljarða Bandaríkjadala útboði bankans í Bandaríkjunum og var töluvert af evrópskum fjármálafyrirtækjum sem sóttust eftir pappír frá banknum. Hann sagði eftirspurnina frá Evrópu til marks um endurvakinn áhuga á Kaupþingi á meðal evrópskra skuldabréfafjárfesta.

Hreiðar Már sagði einnig að yfirtökuáætlanir bankans hafi breyst í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar erlendra greiningaraðila um mikið vægi erlendra fjármálamarkaða á rekstur bankans.

Hann sagði að Kaupþing myndi nú frekar skoða fjármálafyrirtæki með sterka innlánastarfsemi. Bankinn jók nýverið hlut sinn í norska fjármálafyrirtækinu Storebrand og sagði Hreiðar Már að norski bankinn væri slík stofnun. Hann tók þó fram að Kaupþing liti á fjárfestinguna í Storebrand sem tímabundna stöðutöku á þessum tímapunkti, líkt og bankinn gerði með Skandia í fyrra.

Uppgjör Kaupþings á öðrum ársfjórðungi var litað af gengistapi og sagði Hreiðar Már að Kaupþing muni minnka vægi fjárfestinga í skráðum félögum og að innlánstarfsemi verði aukin. Nú þegar hefur bankinn tekið á móti innlánum fyrir um 60 milljónir evra í Finnlandi og hann sagði það hafa tekist vel að auka innlán frá Evrópu í gegnum skrifstofu bankans í Lúxemborg.