Talsmenn Kaupþings vildu ekki tjá sig um umsögn Seðlabanka Íslands um evruuppgjör bankans þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því í gær. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu fyrir helgi lagðist Seðlabankinn gegn því að Kaupþing fengi heimild til að færa bókhald sitt í evrum.

„Seðlabankinn er mótfallinn því að innlend fjármálafyrirtæki taki alfarið upp erlendan gjaldmiðil í reikningshaldi sínu,“ segir meðal annars í umsögn Seðlabankans til ársreikningaskrár. Umsögnina má finna í heild sinni á vef Seðlabankans.

Ársreikningaskrá vildi ekki veita Kaupþingi heimild til að gera upp í evrum frá og með 1. janúar 2008. Ársreikningaskrá setti þau skilyrði fyrir heimildinni að kaupum Kaupþings á hollenska bankanum NIBC yrði formlega lokið fyrir áramót, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst.

Af því gat ekki orðið enda er Fjármálaeftirlitið enn með málið á sínu borði. Samþykki þess þarf til að kaupin geti náð fram að ganga. Kaupþing hefur kært þá niðurstöðu til fjármálaráðuneytisins. Ráðuneytið er með kæruna til umfjöllunar og verður hún afgreidd svo fljótt sem verða má, að sögn Böðvars Jónssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra.