Kaupþing hefur ekki í hyggju að kaupa 20% hlut sænska ríkisins í Nordea, stærsta banka Norðurlandanna, segir í frétt á vefsíðu danska viðskiptablaðsins Børsen.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, sagði í viðtali við Bloomberg News að Kaupþing hyggðist ekki bjóða í hlut sænska ríkisins í Nordea en tók það fram að Kaupþing hefði samt í hyggju að vera með jafn mikil umsvif í Svíþjóð eins og í Danmörku.

Sænska ríkið er lang stærsti hluthafi í Nordea í dag með 19,9% hlut. Hægri stjórnin í Svíþjóð hefur tilkynnt að hluturinn verði seldur. Nordea er stærsta fjármálafyrirtæki Norðurlandanna og ljóst að bankinn mun gegna lykilhlutverki í þeirri samþjöppun sem spáð er að eigi sér stað á norrænum fjármálamarkaði á næstunni.

Nordea er í 37. sæti á lista yfir stærstu banka heimsins en en markaðsvirðið er nálægt 2.900 milljörðum króna.