Kaupþing hefur tryggt sér langtímafjármögnun upp á 1,3 milljarð evra eða um 111 milljarð ísl. króna.

Fjármögnun Kaupþings er samansett af lokuðu skuldabréfaútsölum til fjárfesta í Bandaríkjunum og Evrópu upp á 1,1 milljarð evra annars vegar en bankinn hefur einnig tekið lán hjá ónefndum evrópskum banka upp á 195 milljónir evra.

Fram kemur í fréttatilkynningu Kaupþings að kjörin á fjármögnuninni eru umtalsvert lægri en núverandi skuldatryggingaálag bankans. Þá segir að lánin falli á gjalddaga frá einu ári upp í sjö og hálft ár.

„Þessi nýja fjármögnun upp á 1,3 milljarða evra bætist við þá sterku lausafjárstöðu sem Kaupþing hefur og styrkist hún enn frekar við þá ákvörðun Kaupthing Singer & Friedlander að hætta starfsemi eignafjármögnunar (e. Asset Finance) og hrávöruviðskiptafjármögnunar (e. Commodity Trade Finance) í Bretlandi (sjá tilkynningu 25. febrúar), en gert er ráð fyrir að þær breytingar auki lausafé á þessu ári sem nemur rúmlega 1 milljarði punda (1,3 milljörðum evra). Frekari fjármögnun í ár miðast við að styðja við hóflegan vöxt bankans og endurfjármögnun fyrir árið 2009,“ segir í tilkynningu frá Kaupþing.