Kaupþing undirbýr nú fjárfestakynningar í Ástralíu til að mæla eftirspurn eftir mögulegri skuldabréfaútgáfu í áströlskum dölum, eða svokölluðum kengúrubréfum, segir í frétt Reuters.

Það eru ANZ Investment Bank og RBC Capital Markets sem sjá um kynningarnar sem hefjast þann 16. júlí og munu meðal annars eiga sér stað í Sydney, Brisbane og Melbourne. Kaupþing gaf einnig út skuldabréf í Eyjaálfu árið 2005, fyrstur íslenskra banka.

Það sem af er árinu hefur Kaupþing þegar safnað sér 130 milljörðum króna í skuldabréfaútgáfu víða um heim. Í samtali við Viðskiptablaðið í síðasta mánuði sagði Guðni Aðalsteinsson, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings, að fjármögnuninni væri hvergi nærri lokið og að bankinn íhugaði að gefa út kengúrubréf. "Stundum er ástandið gott á markaðnum og stundum slæmt og við verðum einfaldlega að hamra járnið á meðan það er heitt," sagði Guðni.