Í kjölfar tilkynningar Actavis um kostnað sem fellur til á þriðja ársfjórðungi hefur Greiningardeild Kaupþings banka uppfært afkomuspá sína fyrir fjórðunginn.

Hún gerir ráð fyrir því að hagnaður Actavis á þriðja ársfjórðungi nemi 4,9 milljónum evra [421 milljón króna] (síðasta spá hljóðaði upp á 24,2 milljónir evra [2.079 milljónir króna]) og hagnaður ársins í heild sinni verði 98 milljónir evra [8.423 milljónir króna] (hljóðaði áður upp á 117 milljónir evra [10 milljarðar króna] ).

?Spár okkar fyrir næstu ár eru óbreyttar og gjaldfærslan hefur óveruleg áhrif á sjóðstreymisverðmat okkar. Við mælum áfram með því að fjárfestar kaupi bréf í Actavis og höldum tólf mánaða markgengi óbreyttu í 78 krónum á hlut," segir greiningardeildin.

"Actavis tilkynnti síðasta föstudag að fjárhagsleg áhrif af yfirtökutilraun félagsins á króatíska samheitalyfjafyrirtækinu Pliva, sem bandaríska félagið Barr fékk að lokum, myndu verða neikvæð sem næmi 25 milljónum evra [2,2 milljarðar króna].

Verður kostnaðurinn gjaldfærður á þriðja ársfjórðungi, á meðal fjármagnsliða, og hefur hann veruleg áhrif á hagnað Actavis á tímabilinu. Í yfirtökuferlinu fólst m.a. ítarleg áreiðanleikakönnun, umsóknarferli til samkeppnisyfirvalda í 14 löndum og síðast en alls ekki síst bankatryggingar fyrir öllu kaupverðinu á Pliva," segir greiningardeildin.