Greiningardeild Kaupþings banka hefur uppfært verðmat sitt á Landsbankanum samhliða birtingu afkomuspár fyrir þriðja ársfjórðung.

Verðmatsgengið er 27,5 krónum og tólf mánaðamarkgengið er 30,7. Það er áfram mælt með kaupum í bankanum. Gengi bankans var 27 krónur á hlut við lok markaðar í dag, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

?Landsbankinn kemur vel út úr kennitölusamanburði um þessar mundir. V/H hlutfall bankans er 9,7x fyrir næsta ár og V/I hlutfallið 1,71x samanborið við V/H hlutfallið 11,0x og V/I hlutfallið 1,97x hjá þeim bönkum sem við berum Landsbankann saman við," segir greiningardeildin.

?Við gerum ráð fyrir því að hreinar vaxtatekjur bankans muni nema 10,3 milljörðum á fjórðungnum sem er nokkru lægra en á öðrum ársfjórðungi. Þá gerum við ráð fyrir að hreinar þóknanatekjur nemi 6,9 milljörðum og aðrar rekstrartekjur muni nema um 3,2 milljörðum. Við gerum ráð fyrir að hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi muni nema 7,8 milljörðum króna," segir greiningardeildin.