Greiningardeild Kaupþings banka hefur uppfært verðmat sitt fyrir Össur samhliða birtingu afkomuspár fyrir þriðja fjórðung árins.

"Sjóðstreymisgreining gefur verðmatsgengið 118,3 krónur á hlut (úr 117 krónum í síðasta verðmati) og hækkum við tólf mánaða markgengi okkar í 133 (132) krónur á hlut. Mælum við áfram með því að fjárfestar auki við sig í Össuri (Accumulate)," segir greiningardeildin.

"Við gerum ráð fyrir góðum þriðja ársfjórðungi hjá Össuri þrátt fyrir ákveðin vandræði hjá félaginu á Evrópumarkaði. Ekki er ljóst hvort einhver áhrif verði á fjórðungnum vegna vöruinnköllunar á öðrum fjórðungi ársins, en við gerum ekki ráð fyrir neinum áhrifum þar af í okkar spá. Þá reiknum við með að Össur muni bókfæra um 700 þúsund dollara hagnað vegna áhrifa gengisbreytinga á langtímaskuldir félagsins á fjórðungnum," segir greiningardeildin.