Greiningardeild Kaupþings banka hefur uppfært verðmat sitt fyrir Vinnslustöðina samhliða birtingu spár um afkomu félagsins á þriðja fjórðungi ársins.

"Sjóðstreymisgreining gefur verðmatsgengið 4,1 krónu á hlut og höldum við tólf mánaða markgengi okkar óbreyttu í 4,4 krónum á hlut. Mælum við áfram með því að fjárfestar minnki við sig í Vinnslustöðinni (Reduce)," segir greiningardeildin.

"Verð á sjávarafurðum er hátt um þessar mundir og mun það hjálpa félaginu á annars rólegum ársfjórðungi. Þá styrktist krónan nokkuð á þriðja ársfjórðungi og væntum við að þess muni sjást glögg merki í fjármagnsliðum félagsins," segir greiningardeildin.