Mikil velta hefur verið á skuldabréfamarkaði síðastliðna viku og var veltumetið slegið tvisvar sinnum. Veltan í vikunni nam um 281,3 mö.kr. og þar af var veltan í dag nálægt því að slá fyrra metið en hún var rúmlega 65,2 milljarðar króna. Þetta kemur fram í hálffimm fréttum greiningadeildar Kaupþings.

Þá segir Kaupþing að töluverðar lækkanir hafi orðið á ávöxtunarkröfu bæði verðtryggðra og óverðtryggðra bréfa. Hefur krafa verðtryggðra bréfa lækkað um 38-111 punkta í vikunni og krafa óverðtryggðra bréfa um 68-182 punkta að frátöldu RIKB 08 0613 sem hækkaði um 17 punkta í vikunni.

Kaupþing telur lækkun ávöxtunarkröfunnar stafa af því að markaðsaðilar búast við lækkun stýrivaxta fyrr en áður var talið. Einnig virðist vera að fjárfestar hafi verið að færa sig að einhverju leyti úr fjárfestingum í hlutabréfum yfir í fjárfestingar í skuldabréfum.

Greiningardeild Kaupþings gaf út nýja stýrivaxtaspá á fimmtudag og gerir ráð fyrir að Seðlabankinn lækki stýrivexti sína strax í febrúar um 50 punkta og að þeir verði komnir í 9,25% í árslok frá núverandi gildi, 13,75%. Samkvæmt stýrivaxtaspánni má gera ráð fyrir því að það sé enn einhver lækkunarþrýstingur til staðar á ávöxtunarkröfu skuldabréfa.