„Við erum mjög ánægðir með að stjórnir félaganna séu búnar að komast að þessari niðurstöðu. Það eru nokkrir fyrirvarar, og ekkert breyst hvað það varðar,“ segir Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi í samtalið við Viðskiptablaðið í tilefni sameiningar Kaupþings og Spron sem tilkynnt var um fyrr í dag.

Ingólfur segir samrunaviðræðurnar hafa verið mun umfangsmeiri en menn gerðu sér grein fyrir.

„Kannski of mikil bjartsýni að gefa þessu fjórar vikur í upphafi,“ segir Ingólfur.

Hann segir að almennir viðskiptamenn beggja banka ættu ekki að finna mikinn mun við sameininguna. Kaupþing muni áfram reka sín útibú undir nafni Kaupþings og það sama muni eiga við um Spron.

„Við ætlum okkur að nýta þá sterku stöðu sem Spron hefur á einstaklingsmarkaði til frekari sóknar og að sama skapi mun Spron vörumerkið njóta þess að vera hluti af sterkari heild,“ segir Ingólfur.