Sérstakur saksóknari telur rökstuddan grun um að yfirstjórnendur Kaupþings, ákveðnir starfsmenn eigin viðskipta og verðbréfamiðlunar bankans hafi kerfisbundið og með skipulögðum hætti bakað hluthöfum, kröfuhöfum bankans, ríkissjóði og samfélaginu í heild miklu tjóni með viðamikilli brotastarfsemi.

Þeir eru meðal annars grunaðir um skjalafals, umboðssvik og stórfellda markaðsmisnotkun.

Þetta kemur fram í greinargerð sem sérstakur saksóknari lagði fram vegna beiðni um gæsluvarðhald yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.

Magnús og Hreiðar Már Sigurðsson eru grunaðir um fjöldamörg brot sem fangelsisrefsing liggur við.

Í greinargerðinni er meðal annars nefnt að á árunum 2005 til 2008 hafi Kaupþing keypt gríðarlegt magn af hlutabréfum í sjálfum sér. Umfangið nemur 29% af öllu útgefnu hlutafé hans. Hin umfangsmiklu kaup eru talin hafa leitt af sér að röng mynd skapaðist af bæði virði hlutabréfa í Kaupþingi og af heildarvirkni íslenska verðbréfamarkaðarins.

Kaupin gengu þannig fyrir sig að Kaupþing keypti laus hlutabréf, eigin viðskipti bankans seldu þau síðan í gegnum verðbréfamiðlun hans, í flestum tilvikum í utanþingsviðskiptum til vildarviðskipta, svokallaðra „bréfbera“, sem „keyptu“ þau með lánsfé frá bankanum.

Oftast voru engin veð fyrir þessum lánum og því tók Kaupþing alla áhættuna. Talið er að með þessari háttsemi hafi verið framin umboðssvik og markaðsmisnotkun, en við þeim brotum liggur sex ára fangelsisrefsing.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .