Jóhann Ólafsson & Co hefur keypt matvörufyrirtækið GV heildverslun af hjónunum Guðjóni Þór Steinssyni og Völu Albertsdóttur sem stofnuðu fyrirtækið árið 1991. "Með þessum kaupum erum við að útvíkka starfsemi og vöruúrval Jóhanns Ólafssonar & Co ennfrekar á veitingamarkaðnum í þeim tilgangi að veita núverandi og nýjum viðskiptavinum enn betri þjónustu en áður," segir Sigurður H. Ingimarsson, framkvæmdastjóri Jóhanns Ólafssonar & Co.

Jóhann Ólafsson & Co skiptist í dag í þrjú megin svið: Rafmagnssvið, þar sem OSRAM ljósaperur eru hvað þekktastar, búsáhaldasvið en þar undir fellur m.a. rekstur Villeroy & Boch í Kringlunni og að síðustu er það hótelvörusviðið en þar undir fellur sala á stóreldhústækjum, innréttingum, postulíni, borðbúnaði og smááhölum en einnig tæki til mötuneyta, veitingahúsa og hótela. Jóhann Ólafsson & Co á einnig meirhluta í Hvítlist en það fyrirtæki sérhæfir sig í í innflutningi og sölu á prentpappír og ýmsum tækjum, efnum og búnaði fyrir prentiðnaðinn eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.