Félag í eigu Róberts Wessmann fékk nýlega afhenta lúxusíbúð á Flórída en kaupverðið var 19,75 milljónir bandaríkjadollara, andvirði tæplega 2,4 milljarða króna. Vísir sagði fyrst frá og hefur eftir vefsíðunni BizJournals.net.

Á vef BizJournal kemur fram að HSBC í Bandaríkjunum hafi lánað fyrir um þriðjungi af kaupverði. Eignin er 714 fermetrar að flatarmáli, með fimm svefnherbergi og „sjö og hálft“ baðherbergi að sögn miðilsins. Um íbúð á efstu hæð er að ræða og fylgja henni 365 fermetra svalir, sem hafa að geyma einkasundlaug, útieldhús og garð.

„Það er ekki ljóst hver hjá Alvogen mun nota íbúðina en hins vegar er ljóst að sá hinn sami má búast við talsvert hlýrra loftslagi en í Reykjavík,“ segir í frétt BizJournal. Þar er að vísu samsláttur á ferð því kaupandi var Aztiq en ekki Alvogen.

Í svari Láru Ómarsdóttur, upplýsingafulltrúa Aztiq, við fyrirspurn Vísis segir að eignin hafi verið keypt sem fjárfesting og stefnt sé að því að leigja hana út. Frá kaupum hafi hún nú þegar hækkað um 20-30% í verði.

Leiðrétting: Í upphaflegri frétt kom fram að Aztiq hefði fest kaup á íbúðinni í byrjun árs en hið rétta er að hún var keypt árið 2019 en fékkst nýverið afhent. Hækkunin á verðinu tekur mið af kaupdegi árið 2019. Þá er Lára Ómarsdóttir upplýsingafulltrúi Aztiq en ekki Róberts persónulega. Texta fréttarinnar hefur verið breytt í samræmi við það.