Áhrifavogunarsjóðurinn ValueAct Capital hefur eignast 7% hlut í The New York Times og beitir sér nú fyrir því að fjölmiðlafyrirtækið setji aukna áherslu á að bæta sölu á netinu með því að beina áskrifendum í dýrari pakkaáskriftir. Hlutabréf fjölmiðlafyrirtækisins hækkuðu um 10% í gær. Financial Times greinir frá.

„Okkar rannsókn gefur til kynna að flestir núverandi lesendur og áskrifendur eru spenntir fyrir pakkaáskriftum og myndu greiða hærra verð fyrir þær en eru ekki meðvitaðir að slík tilboð séu yfir höfuð til staðar,“ sagði ValueAct í bréfi til NYT.

„Þetta er tækifæri sem við teljum aðkallandi að stjórnendur grípi þar sem þetta er stærsta tólið til að hraða vöxt […] og tryggja langtíma styrk og stöðugleika miðilsins.“

Allar breytingar í stefnu fyrirtækisins þurfa stuðning frá Ochs-Sulzberger fjölskyldunni sem hefur átt dagblaðið í meira en öld. Fjölskyldan á 95% af B-hlutabréfum sem gerir henni kleift að kjósa 70% af stjórnarmönnum.

New York Times hefur notið góðs af því að setja upp greiðsluvegg en fjöldi áskrifenda fjölmiðilsins hefur tvöfaldast á síðustu fjórum árum og er kominn yfir 9 milljónir. Með yfirtökum og öðrum vexti hefur miðillinn bætt vöruúrval á sviðum eins og tölvuleikjum, íþróttum og eldamennsku. NYT stefnir á að ná 15 milljónum áskrifenda fyrir árið 2027.