McDonald‘s hefur fundið heimamann í Rússlandi til að kaupa alla 850 veitingastaði skyndibitakeðjunnar þar í landi. Fyrirtækið greinir ekki frá söluverðinu en fyrr í vikunni sagðist það eiga von á að bókfæra 1,2-1,4 milljarða dala kostnað vegna sölunnar. BBC greinir frá.

Kaupandinn heitir Alexander Govor en hann hefur rekið 25 veitingastaði í Síberíu undir merkjum McDonald‘s frá árinu 2015. Hann mun nú taka við öllum 850 McDonald‘s veitingastöðunum í Rússlandi og reka þá undir öðru nafni.

Govor er meðstofnandi Neftekhimservice, sem sérhæfir sig í hrávöruvinnslu. Hann er einnig stjórnarmaður í fyrirtæki sem á Park Inn hótel og einkareknar læknastofur í Síberíu.

McDonald‘s tilkynnti í byrjun mars um tímabundna lokun veitingastaða keðjunnar í Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu. Á mánudaginn greindi hún frá því að hún hygðist yfirgefa Rússland eftir 30 ára starfsemi þar í landi.