Samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis kemur væntanlega í ljós á næstunni hvort af kaupum Alfesca á breska félaginu Oscar Mayer Ltd verði. Oscar Mayer er matvælaframleiðandi sem sérhæfir sig í kældum tilbúnum réttum undir vörumerkjum stórmarkaða (e. private label).

Starfsemi fyrirtækisins líkist því að nokkru leyti Bakkavör þótt umsvifin séu mun minni. Á haustdögum tilkynntu forsvarsmenn Alfesca að kaupviðræður við félagið væru hafnar. Á kynningarfundi Alfesca sem haldinn var fyrr í vikunni vegna birtingu uppgjörs fyrir 3. ársfjórðung kom fram að áreiðanleikakönnun væri lokið og nú stæði einungis eftir að semja um verðið. Tíðinda er því að vænta fljótlega, segir í Morgunkorni Glitnis.

Spennandi viðbót við Alfesca

Greining Glitnis telur að Oscar Mayer yrði spennandi viðbót við Alfesca samstæðuna. Velta Oscar Mayer nam 181 milljónum erva á síðasta reikningsári sem nemur 16,4 milljörðum króna. Velta Alfesca mun því aukast um fjórðung ef af kaupunum verður. Þá yrði vöruframboð Oscar Mayer ákjósanleg viðbót fyrir Alfesca og myndi minnka árstíðarsveiflu í rekstrinum. Oscar Mayer er mikilvægur birgir fyrir Sainsbury’s og Morrison verslunarkeðjurnar á Bretlandi. Alfesca á nú í góðu samstarfi við þessar verslanakeðjur í gegnum Lyons Seafood. Eins og kunnugt er sérhæfir Alfesca sig m.a. í framleiðslu anda- og laxaafurða sem njóta mikilla vinsælda í Frakklandi yfir hátíðir en seljast minna þess á milli. Þetta gerir það að verkum að núverandi rekstur félagsins veltur mikið á því hvernig jóla- og páskasalan gengur.

Minnkandi árstíðarsveifla

Kaup Alfesca á Oscar Mayer eru vel til þess fallin að minnka árstíðarsveiflu í rekstri Alfesca og auka áhættudreifingu félagsins. Ýmsum spurningum er þó ósvarað um Oscar Mayer, félagið er óskráð og afkoma síðustu ára liggur ekki fyrir, samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis.