Kínverskur fasteignafjárfestir hefur samþykkt að kaupa, Knightsbridge höllina, 45 herbergja glæsihús sem horfir yfir Hyde Park í London á meira 200 milljónir punda, eða sem samsvarar ríflega 32,1 milljarði íslenskra króna.

Þar með er húsið, sem er með heimilisfangið 2-8a Rutland Gate, dýrasta einbýlishús sem selt hefur verið í Bretlandi, en samkvæmt umfjöllun Guardian verður endanlegt söluvirði einhvers staðar á milli 205 til 210 milljón punda.

Kaupandinn heitir Cheung Chung-kiu, er stofnandi og stjórnarformaður fjárfestingarfélagsins CC Land Holdings í Hong Kong sem á eignir víða í Kína og Bretlandi. Meðal annars á hann nú þegar skýjakljúf í borginni sem kallaður er „ostaskerinn“, sem keyptur var á 1,15 milljarða punda, árið 2017.

Heildarflatarmál hússins, sem er í hverfinu Knightsbridge, er 62 þúsund fermetrar, en í því eru eins og áður segir 45 herbergi, þar af 20 svefnherbergi, sundlaug, spa, lyftingarsalur, og neðanjarðarbílageymsla fyrir fjölda bíla.

Áður í eigu krónprinsa og forsætisráðherra í Mið-Austurlöndum

Húsið var byggt um 1830 en hafði verið breytt úr fjögurra íbúða húsi í eitt um árið 1980 og var það um tíma í eigu krónprins af Sádi Arabíu sem lést árið 2011, og síðar Rafic Hariri sem verið hefur forsætisráðherra Líbanon.

Dýrustu einbýlishús í Bretlandi fyrir þessi kaup voru þegar útlægur rússneskur auðkýfingur, Andrey Borodin keypti heimili nálægt Henley-on-Thames árið 2011 fyrir 140 milljón pund. Nær í tíma má nefna kaup bandaríska auðjöfursins Ken Griffin á glæsihýsi nálægt Buckingham höll á 95 milljón pund.

Kínverski viðskiptajöfurinn hefur ekki enn ákveðið hvort hann flytji sjálfur með fjölskyldu sína í húsið eða skipti því upp í minni eignir, en ef hann velur síðari kostinn er mögulegt að heildarverðmæti eignarinnar geti farið í 700 milljón pund að sögn talsmanns sem Guardian vitnar í.