Hveragerðisbær hefur keypt lóðina við Austurmörk 25 í Hveragerði, þar sem veitingaskálinn Eden stóð þar til hann brann árið 2011, af Landsbankanum. Þetta kemur fram á vefsíðu bæjarins .

Þar kemur fram að kaupverðið nemi 10 milljónum króna, en kaupsamningur og afsal vegna kaupanna var lagt fram á fundi bæjarstjórnar þann 10. september síðastliðinn.

„Það er mikið ánægjuefni að lóðin skuli héðan í frá vera á forræði Hveragerðisbæjar sem þar með getur unnið að skipulagi hennar í samræmi við stefnumörkun bæjarins,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.