Fasteignafjárfestingarfélagið Landmark Properties, sem er að hluta til í eigu Landsbanka Íslands, hefur samþykkt að kaupa fasteignir Búlgaríu fyrir 13 milljónir evra (1,16 milljarða íslenskra króna) af breska félaginu Orchid Developments, sem greindi frá sölunni fyrir helgi. Orchid segir söluhagnaðinn nema sex milljónum evra.

Landmark Properties er í eigu breska fjárfestingarsjóðsins Altima Partners, Lundúnafyrirtækisins Gort Securities, sem á meðal annars Radisson SAS hótelhúsnæðið í Sófíu, og Landsbanka Íslands.

Fasteignirnar eru staðsettar í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu, og skiptist húsnæðið í skrifstofur og bílasýningarsali. Heildarstærðin er átta þúsund fermetrar og hýsa fasteignirnar meðal annars Porsche BG, sem hefur einkaréttinn á innflutningi á Volkswagen og Audi bifreiðum í Búlgaríu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í apríl síðastliðnum að Landmark hefði ákveðið að fjárfesta tólf milljónir evra, sem samsvarar rúmum milljarði króna, í nýju verslunarsvæði í Búlgaríu. Verslunarsvæðið mun rísa í útjaðri búlgörsku borgarinnar Plovdiv, sem er næst stærsta borg landsins.

Landmark var stofnað árið 2005 og hefur einnig áhuga á að fjárfesta í fasteignum í nágrannalöndum Búlgaríu, svo sem Rúmeníu og Serbíu. Björgólfur Thor Björgólfsson, einn stærsti eigandi Landsbankans, hefur fjárfest töluvert í Búlgaríu í gegnum fjárfestingarfélag sitt Novator og samheitalyfjafyrirtækið Actavis. Novator hefur tryggt sér kauprétt að 65% hlut í Bulgarian Telecommunications Company (BTC).

Landsbankinn hefur einnig fjárfest í BTC og Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að bankinn hefur aukið hlut sinn í símafyrirtækinu úr 8,39% í 13,38%. Björgólfur Thor hefur tryggt sér hlut í búlgarska bankanum EIBank og jók Novator Finance eignarhlutinn úr um 14,63% í 48,63% í fyrir skömmu.