*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 2. september 2020 11:39

Kaupir fjórðungshlut í Sagafilm

Kaupverð sem Beta Nordic Studios greiddi fyrir fjórðungshlut í Sagafilm er trúnaðarmál, tilgangur kaupanna er að efla vöxt félagsins.

Ritstjórn
Saga film er elsta kvikmyndaframleiðslufyrirtæki Íslands, stofnað árið 1978.

Beta Nordic Studios hefur keypt 25% hlut í Sagafilm en áðurnefnt félag er dótturfyrirtæki Beta Film í Þýskalandi, stærsta sjálfstæða kvikmyndafyrirtækis Evrópu. Kaupverðið er trúnaðarmál. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Fulltrúar Beta Nordic Studios taka sæti í stjórn félagsins og ekki er gert ráð fyrir að neinar breytingar verði á starfsemi Sagafilm. Framkvæmdastjóri Beta Nordic Studios er Martin Håkansson. Hann mun setjast í stjórn Sagafilm, ásamt Justus Riesenkampff, yfirmanni Norðurlandamála hjá Beta Film. 

„Með Beta Nordic Studios í hluthafahópi Sagafilm eykst til muna aðgengi að alþjóðadreifingu fyrir kvikmynda- og sjónvarpsefni Sagafilm, auk þess sem þetta er staðfesting á stöðu og árangri Sagafilm á alþjóðamörkuðum undanfarin misseri. Tilgangur þessara kaupa er að efla vöxt Sagafilm enn frekar á þeim mörkuðum,“ segir í fréttatilkynningu.

Martin Håkansson segir að þessu tilefni: „Við erum mjög stolt af því að Sagafilm og Beta Nordic Studios séu komin í samstarf með þessum kaupum okkar á hlutum í Sagafilm, sem er vel þekkt fyrirtæki og með sterkt vörumerki og alþjóðlega stöðu í kvikmynda- og sjónvarpsgreininni. Við leggjum á það áherslu að fyrirtækin sem eru í Beta Nordic Studios séu sjálfstæð og taki þannig þátt í skapa það sérstaka vörumerki sem BNS er að byggja upp til langrar framtíðar.“ 

Eigendur Sagafilm eru KPR ehf. og HilGun ehf. og nú Beta Nordic Studios. Sagafilm framleiðir hvers kyns kvikmyndir og sjónvarpsefni, auk þess að sinna þjónustu við erlend verkefni og auglýsingar. Félagið velti 2,3 milljörðum á árinu 2019.