*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 19. nóvember 2020 15:04

Kaupir fyrir 200 milljónir í Icelandair

Breskur fjárfestir hefur keypt hlutabréf í Icelandair Group fyrir 200 milljónir króna. Bréf Icelandair hafa hækkað um 3,5%.

Alexander Giess
Hlutabréf í Icelandair kosta nú 1,45 krónur.
Haraldur Guðjónsson

Breski fjárfestirinn John Shrimpton hefur keypt hlutabréf í Icelandair Group í eigin nafni fyrir um 200 milljónir króna. Shrimpton er því orðinn stærsti erlendi fjárfestirinn í Icelandair en frá þessu herma heimildir Fréttablaðsins.

Téður Breti er annar af stofnendum asíska vogunarsjóðsins Dragon Capital sem er með höfuðstöðvar sínar í Víetnam. Sjóðurinn var stofnaður um miðjan tíunda áratug síðustu aldar en Shrimpton hætti störfum árið 2010. Í dag eru þær eignir sem sjóðurinn stýrir metnar á um 3 milljarða dollara, andvirði um 400 milljarða króna.

Hlutabréf Icelandair hafa hækkað um ríflega 3,5% í 622 milljóna króna veltu það sem af er degi. Bréf flugfélagsins standa í 1,45 krónum. Hvert hlutabréf kostaði 0,9 krónur þann 6. nóvember síðastliðinn og hafa því hækkað um rúmlega 60% síðan þá.

Stikkorð: Icelandair