Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) hefur keypt alla hluti í FISK Seafood eignarhaldsfélagi ehf. Eina eign félagsins er 196,5 milljón hlutir í Brim hf. en það eru um tíu prósent af útgefnu hlutafé í félaginu.

Viðskiptin fara fram á genginu 40,4 krónur á hlut og er samanlagt virði þeirra því tæplega átta milljarðar króna. FISK Seafood kom inn í hóp eigenda eftir hluthafafund þann 19. ágúst síðastliðinn þar sem kaup Brims á sölufélögum ÚR var til umræðu. Gildi lífeyrissjóður losaði alla sína hluti eftir fundinn og var FISK kaupandi.

Í tilkynningu frá ÚR segir að stefnt sé að því að hlutur félagsins í Brim fari ekki yfir helming. Kaupin séu gerð með eðlilegum fyrirvörum. Eftir viðskiptin á ÚR kringum 48,4% bréfa í Brim en í þeirri tölu er ekki tekið tillit til hlutafjáraukningar sem ákveðin var á hluthafafundi í ágúst. Sé litið til hennar á ÚR meira en helming bréfa í Brim.