Breski athafnar- og milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe, hefur keypt meirihlutann í Grímsstöðum á fjöllum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ratcliffe, en samkvæmt honum er markmiðið að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi.

Um er að ræða lóðina sem kínverski fjárfestirinn Huang Nubo vildi kaupa á rúman milljarð, en ekkert varð úr þeim viðskiptum. Jörðin var auglýst fyrir 780 milljónir króna og er það líklegast verðið sem fengist hefur fyrir hana.

Í tilkynningunni tekur Ratcliffe fram að umhverfissjónarmið séu honum ofar öllu og að þau séu eini tilgangurinn fyrir kaupunum. Hann vill þá vinna náið með bændum á svæðinu til að tryggja áframhaldandi landbúnað og verndun laxastofnsins.

Jörðin er þó enn að hluta til í eigu ríkisins, auk þess sem aðrir eiga hluti í jörðinni og reka þar ferðaþjónustustarfsemi.