Kaldalón hefur náð samkomulagi um kaup á atvinnuhúsnæði að Fossaleyni 19-23 í Grafarvogi. Innifalið í kaupunum er 7.100 fermetra ónýttur byggingarréttur á lóðinni, en lóðin er alls tæpir 18 þúsund fermetrar. Verðmæti fasteignar í viðskiptum er 1.528 milljónir króna og verðmæti byggingarréttar með jarðvegsskiptum 252 milljónir, eða alls 1.780 milljónir króna, að því er kemur fram í tilkynningu Kaldalóns til Kauphallarinnar.

Seljandi fasteignarinnar er Búbót ehf., sem er að stærstum hluta í eigu Ólafs og Helgu Guðrúnar Johnson. Búbót er dótturfélag Esjubergs ehf. sem heldur utan um heildverslunina Ó Johnson & Kaaber.

Kaupverð greiðist með reiðufé að fjárhæð 1.280 milljónir króna auk útgáfu hlutafjár í Kaldalóni að fjárhæð 500 milljónir króna. Gengi útgáfu hlutafjár er 1,85 krónur á hlut eða sem nemur meðalgengi tíu viðskiptadaga fyrir samþykkt kauptilboðs.

Skrifað hefur verið undir langtíma leigusamning um leigu á allri fasteigninni. Kaldalón áætlar að rekstrarhagnaður (NOI) sinn aukist um um 110 milljónir króna á ársgrundvelli vegna viðskiptanna.