Einstök utanþingsviðskipti með bréf FL Group [ FL ] sem námu tíu milljörðum króna voru klukkan hálf fjögur í dag, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Gengi viðskiptanna var 12,1 króna á hlut. Markaðsgengi FL Group þegar þetta er skrifað er 11,2 en bréfin hafa fallið um 8,8% í dag. Ekki hefur komið fram hverjir standa að baki þessum viðskiptum.

Um er að ræða 826,4 milljónir hluta. Sex einstakir hluthafar eiga stærri hluti en það: Materia Invest, Kaupþing [ KAUP ], Baugur Group, Gnúpur, Oddaflug og BG Capital, sem er í eigu Baugs.

Í tilkynningu frá Gnúpi kemur fram að fjárfestingafélagið hafi náð samkomulega um að selja eignir og muni endurskipuleggja rekstur sinn. Ekki kom fram í tilkynningunni í hverju breytingarnar fælust.

Jafnframt voru einstök utanþingsviðskipti með FL Group fyrir um 1,4 milljarða króna, sem fram fóru á genginu 12,3, rétt fyrir þrjú.

Auk þess voru einstök utanþingsviðskipti með  bréf Glitnis fyrir 2,3 milljarða króna á genginu 19,55. Markaðsgengi bankans er 19,45 þegar þetta er skrifað en dagslækkun bankans nemur 4,6%