Norska leigufélagið Heimstaden, sem keypti Heimavelli á síðasta ári, hefur að undanförnu haldið áfram að bæta í fasteignasafn sitt. Félagið tilkynnti í dag um kaup á 647 íbúðum auk atvinnuhúsnæðis í Varsjá í Póllandi fyrir um 13 milljarða íslenskra króna. Framkvæmdir standa enn yfir við húsnæðið en fyrsta áfanga á að ljúka á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Kaupin nú koma til viðbótar við fasteignir sem félagið keypti í Varsjá í desember fyrir um 10 milljarða íslenskra króna sem samanstóðu af 640 íbúðum sem töldu 24 þúsund fermetra og 2 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði. Félagið hefur því farið út í 23 milljarða fjárfestingu í húsnæði í Varsjá á stuttum tíma.

Sjá einnig: Eigandi Heimavalla efnaður ævintýramaður

Heimstaden er að mestu í eigu litríka norska milljarðamæringsins Ivar Tollefsen. Félagið átti ríflega 100 þúsund leiguíbúðir í lok september sem metnar voru á um tvö þúsund milljarða íslenskra króna.

Heimavellir voru afskráðir úr Kauphöll Íslands eftir kaupin á síðasta ári og runnu formlega inn í Heimstaden í byrjun ársins og tóku upp nafn móðurfélagsins.